Góðan dag foreldrar og aðrir forráðamenn, lesið vel þessa frétt frá okkur
Talsverður fjöldi smita af völdum COVID-19 hafa greinst á Austurlandi undanfarið og síðustu tvo sólarhringa hafa bæst við um 30 ný smit á svæðinu. Staðan í faraldrinum er því orðin verulega þung og farin að reyna á víða í samfélaginu hér á Austurlandi. Þá hafa smit áhrif á starfsemi og mönnun í heilbrigðiskerfinu þar sem má lítið út af bregða til þess að þjónusta skerðist verulega. Ljóst er að grípa þarf til aðgerða til að létta þar á og minnka útbreiðslu smita og veikindum því tengdu.
Mörg smit sem greinst hafa á Austurlandi undanfarna daga hafa tengingu við grunnskólana á Reyðarfirði, Eskifirði og í Neskaupstað. Á fundi aðgerðastjórnar Austurlands nú kl. 14 var því ákveðið, í samráði við Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, að fella niður kennslu í Nesskóla í Neskaupstað, Eskifjarðarskóla og Grunnskóla Reyðarfjarðar á morgun, föstudaginn 14. janúar. Gripið er til er þessara aðgerða til að reyna að draga úr útbreiðslu smita og ekki síst til að létta álagi af heilbrigðiskerfinu á Austurlandi meðan náð er utan um dreifingu smita og smitrakningu. Staðan varðandi opnun skólanna verður tekin um helgina og eru foreldrar og forráðamenn hvattir til að fylgjast með tilkynningum þar um. Þá hvetur aðgerðarstjórn íþróttafélög til að fella niður íþróttaæfingar fram yfir komandi helgi meðan ástand þetta varir. Þegar hafa ýmis félög brugðist við og fellt niður æfingar í ljósi útbreiðslu smita. Fyrir það ber að þakka samstöðu íbúa Austurlands í þeim málum eins og svo oft áður í faraldrinum.
Ástandið í öðrum skólastofnunum Fjarðabyggðar og Austurlands er betra og því er ekki talin ástæða til að loka þar eins og sakir standa en áfram verður fylgst náið með stöðunni á hverjum stað fyrir sig.
Íbúar eru sem fyrr hvattir til að mæta í sýnatöku finni þeir til einkenna eða telji sig hafa verið í samskiptum við smitaðan einstakling. Þá eru nemendur og kennarar ofannefndra skóla hvattir til þess að koma í sýnatöku á morgun, föstudaginn 14. janúar. Á morgun er sýnataka í boði á Reyðarfirði frá kl. 9 - 10:30 og á Egilsstöðum kl. 12 - 13:30. Um helgina er stefnt að því að hafa auka opnun í sýnatöku en ekki búið að staðfesta mönnun. Opnunartími verður auglýstur um leið og hann liggur fyrir.
Með kveðju úr skólanum
Sigrún og Jóhanna
Lambeyrarbraut 16 | 735 Eskifjörður Sími á skrifstofu: 4709150 Netfang: sigrun@skolar.fjardabyggd.is/johannag@skolar.fjardabyggd.is |
Skrifstofa skólans er opin frá Símtölum í síma 470-9150 er svarað frá 7:45 til 13:30. |
Tilkynningar um veikindi nemenda: Á mentor síðu nemenda/ í síma:470-9150/ email: olla@skolar.fjardabyggd.is