Farsæld barna - samþætt þjónusta

Þann 1. janúar 2022 tóku í gildi ný lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Meginmarkmið laganna er að búa til umgjörð sem stuðlar að því að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana.

Samþætt þjónusta er skipulögð og samfelld þjónusta sem hefur það að markmiði að stuðla að farsæld barns og er veitt af þeim þjónustuveitendum sem eru best til þess fallnir að mæta þörfum barns hverju sinni. Til þjónustuveitenda teljast t.d. leik-, og grunnskólar, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar, framhaldsskólar, heilsugæsla, sérhæfð heilbrigðisþjónusta, lögregla, félagsþjónusta og barnavernd.

Þannig miða ákvæði laganna að því að formfesta samstarf um veitingu þjónustu í þágu farsældar barna og skapa skilyrði til að unnt sé að bregðast fyrr við tilteknum aðstæðum eða erfiðleikum í lífi barns með viðeigandi stuðningi þegar þörf þykir. Þeir sem bera ábyrgð samkvæmt lögum þessum skulu fylgjast með velferð og farsæld barna og foreldra. Meta þörf fyrir þjónustu, bregðast við þörf barna og foreldra fyrir þjónustu á skilvirkan hátt um leið og þörf krefur og hafa samráð sín á milli með það að markmiði að þjónustan sé samfelld og samþætt í þágu velferðar og farsældar barna og foreldra.

Hér eru nánari upplýsingar um Farsæld barna - samþætta þjónustu .