13. desember s.l. heimsótti Jóna Árný , bæjarstjóri stofnanir Fjarðabyggðar á Eskifirði ásamt þeim Önnu Marín Þórarinsdóttur, stjórnanda fræðslumála og skólaþjónustu og Haraldi Líndal, upplýsingafulltrúa.
Heimsóknin byrjaði á að Sigrún Traustadóttir, skólastjóri tók á móti gestunum. Sest var niður með starfsfólki skólans og farið var yfir það helsta í skólastarfinu. Má þar nefna þemavikur, kærleiksvika og jólaball sem haldið var vikuna eftir hjá nemendum.
Að loknum góðum umræðum var gengið um skólann og kíkt inn í kennslustundir hjá bæði eldri og yngri nemendum. Nemendur í 10. bekk voru í náttúrufræði og voru að læra um röntgentækni og hvernig tæknin virkar þegar verið er að taka t.d. röntgenmyndir af beinum. Í samtali við bæjarstjóra þá var m.a. rætt hvað tæki við eftir 10. bekk og stefndu allir nemendur á áframhaldandi nám og voru ýmsir skólar nefndir í því samhengi. Greinilegt er að töluverður áhugi er m.a. fyrir verkgreinum í Verkmenntaskóla Austurlands. Nemendur í 8. og 9. bekk voru í stærðfræðitíma og var verið að læra stærðfræðina m.a. í gegnum ýmiskonar spil og í 7. bekk var verið að vinna verkefni í íslensku. Í heimilisfræði voru blandaðir hópar og voru nemendur á fullu að baka piparkökur. Það er gaman að segja frá því að á hverju ári hefur skólinn fengið gefins kindaskrokka frá hjónunum Heiðbergi Hjelm og Sjöfn Gunnarsdóttur á Útsekk. Í skólanum hefur síðan Kristín Lukka frætt börnin um hvernig kjötið er unnið með því að kenna þeim að úrbeina, hakka og pakka kjötinu en einnig hvernig það er meðhöndlað og eldað.
Aðstæður voru skoðaðar í bókasafninu sem hefur verið lokað undanfarna mánuði vegna viðgerða, en nú fer að koma að því að það verði opnað og unnið er hörðum höndum að raða bókum upp í hillur og gera allt klárt.
Snillingadeildin er með aðsetur í Eskifjarðaskóla en það er elsta deildin í leikskólanum Dalborg, þar var einn nemandi úr 10. bekk í starfsnámi. Nemendum í 9. – 10. bekkjar stendur til boða að fara í vettvangskynningu yfir veturinn. Fara þau þá á vinnustaði og vinna með starfsmönnum og fá innsýn inn í verkefnin sem leysa þarf á hverjum stað. Mikil og góð þátttaka hefur verið hjá vinnustöðum á Eskifirði að taka á móti nemendum sem kunna greinilega vel að meta það að fá innsýn inn í störfin á svæðinu.
Nokkrir nemendur voru að ljúka tíma í smíðavinnu þegar við komu við í smíðastofunni. Smíðastofan var ein af þeim stofum sem þurfti að loka þegar mygla kom upp síðasta vetur. Halldór sem er leiðbeinandi þurfti þá að sýna útsjónarsemi um það hvernig náminu yrði háttað. í stað þess að fella það niður voru kennslustundir færðar út, nemendur lærðu að tálga tré og búa til bekki úr pallettum sem svo hafa verið notaðir utandyra.
Jóna Árný, bæjarstjóri ásamt Sigrúnu Traustadóttur, skólastjóra og Önnu Marín Þórarinsdóttur, stjórnanda fræðslumála og skólaþjónust
18.janúar sl. heimsótti Jóna Árný 9.-10.bekk Eskifjarðarskóla eina kennslustund og ræddi við nemendur um íbúafundinn sem var þennan sama dag í sal skólans. Í heimsókninni spunnust skemmtilegar og áhugaverðar umræður. Nemendur fengu tækifæri til að ræða við bæjarstjóra og spyrja spurninga sem lágu þeim á hjarta.
Jóna Árný ásamt nemendum í 9.-10.bekk að lokinni heimsókn í bekkina.
Við þökkum Jónu Árný, Önnu Marín og Haraldi kærlega fyrir komuna til okkar.
Lambeyrarbraut 16 | 735 Eskifjörður Sími á skrifstofu: 4709150 Netfang: sigrun@skolar.fjardabyggd.is/johannag@skolar.fjardabyggd.is |
Skrifstofa skólans er opin frá Símtölum í síma 470-9150 er svarað frá 7:45 til 13:30. |
Tilkynningar um veikindi nemenda: Á mentor síðu nemenda/ í síma:470-9150/ email: olla@skolar.fjardabyggd.is