Litlu jólin voru haldin á hefðbundinn hátt þriðjudaginn 18. desember. Venjulegur skóladagur var hjá nemendum þangað til klukkan var korter í 11. Þá var hádegismatur og frímínútur áður en hver bekkur hélt í sína stofu og átti notalega stund á stofujólum. Eftir það hófst dagskrá litlu jólanna hjá nemendum í 1.-6. bekk og eldri nemendur héldu flestir heim á leið.
Á litlu jólunum var hver bekkur með sitt skemmtiatriði, krakkar úr tónlistarskólanum spiluðu og í lokin var dansað í kringum jólatréð og jólasveinar kíktu í heimsókn. Einhverjir höfðu á orði að þetta væri styðsta jólaball sem haldið hefði verið, enda hafði dagskráin gengið hægt og allir komnir á síðasta snúning.
Á þemadögunum var ákveðið að breyta til. Síðustu ár hafa dagarnir snúist um jólin og nemendur hafa verið í alls kyns smiðjum sem tengst hafa jólunum. Í ár snerust dagarnir um gildi skólans sem eru áræði, færni, virðing og þekking. Nemendur voru í smiðjum þar sem þeir kynntust þeim löndum sem nemendur skólans eru frá. Nemendur voru í hópum þvert á aldur og var unun að fylgjast með þeim eldri passa upp á þau yngri. Í smiðjunum hlustuðu nemendur á kynningu um löndin, lituðu fána þeirra, svöruðu spurningum, bjuggu til bosnískt vinaband, smökkuðu pólska súpu og dönsuðu þýska dansa. Gildin fléttast saman í svona vinnu og allir voru mjög áhugasamir og glaðir með dagana.
Dagar eins og þessir verða án efa haldnir aftur í skólanum. Þá er gott að geta þess að skólinn hefst aftur eftir jólafrí fimmtudaginn 3. janúar.
Í lokin óskum við nemendum, starfsfólki, foreldrum og bæjarbúum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Við þökkum samstarfið á árinu sem er að líða.
Lambeyrarbraut 16 | 735 Eskifjörður Sími á skrifstofu: 4709150 Netfang: sigrun@skolar.fjardabyggd.is/johannag@skolar.fjardabyggd.is |
Skrifstofa skólans er opin frá Símtölum í síma 470-9150 er svarað frá 7:45 til 13:30. |
Tilkynningar um veikindi nemenda: Á mentor síðu nemenda/ í síma:470-9150/ email: olla@skolar.fjardabyggd.is